Spurt og svarað

Flutningsmiðlar eru dreifikerfin sem t.d. nettengingar geta notað til að flytja sín merki frá tölvu til vefþjóns

Koparlagnir
Einfaldur koparstrengur sem var upprunalega hugsaður til að flytja símamerki.  En vegna þess að dreifikerfið var til staðar var þróuð tækni til að flytja önnur merki yfir koparlínur líka.  Þetta sparaði fyrirtækjum að þurfa að byggja upp nýtt dreifikerfi.  Vegna þess hvernig merki eru send eftir koparlögnum eru þær mikið hægvirkari en ljósleiðari.

Ljósleiðari
Ljósleiðari er örgrannur gegnsær þráður úr gleri. Ljósgeisli er sendur inn í annan endann með sendi og á hinum endanum er móttakari sem tekur við ljósmerkinu. Hraðinn í þessari tækni er mun meiri (aðeins hægari en ljóshraði) og því eru gæði og flutningsgeta töluvert meiri en í venjulegum koparvír og þeirri tækni sem notar hann. Við sjáum ekki fram á að hægt verði að senda merki mun hraðar í náinni framtíð, það þarf að brjóta eitt eða tvö eðlisfræðilögmál fyrst.

Flutningsgeta og gæði nettengingar

Flutningsgeta segir til um hversu mikið magn af gögnum er hægt að senda í gegnum nettengingu á ákveðnum tíma.
12mbit/s þýðir að það er hægt að senda 12mbit á einni sekúndu, eitt bæt er 8 bitar þannig að það er hægt að flytja 1.5 megabæt á sekúndu með ADSL tækni.
30mbit/s, 30/8 = 3.75 megabæt á einni sekúndu með VDSL tækni.
Til samanburðar er ljósleiðari með flutningsgetu upp á 100 til 200mbit.  200/8 = 25megabæt á sekúndu.

Gæði
Gögn sem send eru á netinu eru brotin upp í pakka.  Ef slæm gæði eru á netsambandi komast pakkarnir ekki til skila og tölvan þarf þá að senda netþjóni skilaboð um að hún hafi ekki fengið ákveðinn pakka og að netþjónninn þurfi að senda hann aftur.  Netþjónninn þarf þá að senda þann pakka aftur á meðan þau gögn sem komust til skila þurfa að bíða. Ef þetta gerist nógu oft þá gefst nettengingin upp og við fáum í vafrann að hann geti ekki birt síðuna. 
Latency er mælieining á þeim tíma sem það tekur pakka að fara frá tölvu til vefþjóns og til baka.  Ekkert óeðlilegt er að sjá latency á ADSL og VDSL tengingum upp á 80-100 millisekúndur þegar verið er að tengjast vefþjónum á íslandi.  Latency í ljósleiðara við svipaðar aðstæður og sömu vefþjóna er 2-5ms.

Nettengingar

Þráðlaus netsambönd (3G/4G/WiFi)
Merkið er sent með bylgjum um loftið, það þarf að nota hærri bylgjutíðni til að ná meiri hraða, hærri bylgjutíðni er viðkvæmari fyrir truflunum vegna t.d. veðurs eða járnabindingar í húsum. Tækni virkar best ef bein sjónlína er í sendimastur.

ADSL er tækni til að senda netmerki eftir sama koparstrengnum og símafélög lögðu í jörð fyrir fjöldamörgum árum. Flest netfyrirtæki í dag bjóða upp á 12mbit niður og sjaldnast meira en 1mbit upp ADSL merkið er með hærri tíðni en eldri tækni notaði, með hærri tíðni er hægt að flytja meira af gögnum en merkið verður viðkvæmara fyrir tapi í koparlögnunum og þessvegna fellur hraði eftir því sem lengra er í símstöð. Því lengra sem kúnni er frá símstöð því verri verður hraðinn og ADSL nær yfirleitt ekki lengra en 5km án þess að sérstakir magnarar séu settir á leiðina. Sé verið að byggja upp stórt svæði með ADSL tækni eru þessir magnarar oft settir í hvert hverfi. Þetta er gömul tækni og í raun orðin hægvirk, til dæmis er yfirleitt ekki nógu mikil bandvídd á ADSL línu til þess að horfa á háskerpusjónvarp án þess að það komi truflanir.

VDSL/Ljósnet
Svipuð tækni og ADSL nema merkið notast við enn hærri tíðni, hámarks vegalengd er um 1 km áður en merkið er orðið of lélegt til að halda uppi ásættanlegum hraða og gæðum. Flest íslensk netfyrirtæki bjóða VDSL í dag með hraða allt að 50mbit niðurstreymi og oftast um 30mbit uppstreymi. Til þess að koma VDSL tækni í hús sem liggja lengra frá símstöð eru lagðir ljósleiðarar út í hvert hverfi, í hverju hverfi er svo komið fyrir VDSL stöð og hús sem eru í innan við 1 km fjarlægð frá þeirri stöð geta fengið VDSL tengingu. Ljósnet er gríðarlegt misheiti þar sem síðasti leggurinn er alltaf yfir koparþráð og það setur miklar skorður á þann hraða og þau gæði sem hægt er að bjóða upp á.